Guðný Rúnarsdóttir NEOGVUD
Á undanförnum árum eða frá því Guðný lauk námi í keramiki við Myndlistaskóla Reykjavíkur hefur hún unnið að fjölbreyttum verkum í leir í gegnum kennslu og sína eigin listsköpun. Guðný hefur gefið sér góðan tíma til þess að kynnast leirnum sem efniviði og skapað sér sérstöðu með óvenjulegum flísum, plöttum og fleiri nytjahlutum. Í þessum verkum má greina bæði forvitni og leit að óvæntu mynstri, tilviljanakenndum formum og endurtekningu en þessi leit er og hefur verið megin drifkraftur í listsköpun Guðnýjar.
_____/////_____/////_____/////_____
Ferilskrá:
Guðný útskrifaðist árið 2003 með BA gráðu í myndlist frá LHÍ, eftir það lauk hún diplómu í keramiki frá Myndlistaskólanum í Reykjavík og hefur unnið sjálfstætt í leirlist síðan. Árið 2013 útskrifaðist Guðný með M. Art. Ed. frá Listkennsludeild LHÍ og fjallaði lokaritgerð hennar um verkefnið Greinar verða skjól sem byggði á skapandi námi, útikennslu og reynslunámi.
Guðný hefur kennt sjónlistir á ýmsum vettvangi, meðal annars í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Skaftfell myndlistarmiðstöð Austurlands, Landakotsskóla, Dalskóla og Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur stýrt skapandi verkefnum s.s. eins og námskeiðinu Uppá hæð ásamt Þóreyju Mjallhvíti Ómarsdóttur sem haldið var á Listasafni Einars Jónssonar en Guðný starfaði á safninu meðfram námi um árabil.
_____/////_____/////_____/////_____
Guðný býr og starfar í Reykjavík en á ættir að rekja vestur til Ísafjarðar og er færeysk í aðra ættina. Í Færeyjum hefur hún dvalið í lengri og skemmri tíma og m.a. unnið að listsköpun í heimabæ afa síns Gjógv. Árið 2006 stýrði Guðný ásamt fleirum listviðburðinum Föroyapro – list langt úti þar sem íslenskir listamenn unnu með ólíkan efnivið og sköpuðu tengsl við innfædda listamenn og fólkið í þorpinu en í Gjógv eiga vetrardvöl aðeins um 65 íbúar. Fjórum árum síðar eða árið 2010 var kvikmynd Guðnýjar Fríur fantasíur um tvær rosknar áhugalistakonur í Færeyjum frumsýnd á Skjaldborg. Þessar tvær áhugalistakonur eiga það sameiginlegt að skapa óvenjuleg verk þar sem fagurfræði hversdagsleikans er áberandi; verk sem sköpuð eru úr hversdagslegum efnivið þar sem hið óvænta og tilviljanakennda er áberandi. Þegar litið er yfir feril Guðnýjar Rúnarsdóttur má greina áhrif frá því sem hún hefur séð, skynjað og upplifað í gegnum ferðir sínar til Færeyja og tengsl sín við eyjarnar.